13. Loftslagið

Skoðaðu Eyðublað 8 og skoðaðu verkefnin í því. Smelltu á blaðið hér til hliðar til að stækka það, þú getur líka prentað það út.

Hitastigið á jörðinni hefur breyst í gegnum tíðina og ýmist hækkað eða lækkað. Það hefur hækkað töluvert á síðustu árhundruðum. Frostdögum og óvenju köldum dögum hefur fækkað og hitabylgjur eru algengari. Flóð og þurrkar hafa aukist en snjór hefur bráðnað og jöklar og hafís minnkað. Ástæðan er talin vera fyrst og fremst efni sem heitir koltvísýringur (CO2). Koltvísýringur kemur m.a. úr bílum og öðrum vélum og safnast í lofthjúp jarðar og hefur áhrif á loftslagið.

Á Íslandi er loftið sem við öndum að okkur yfirleitt mjög hreint. Þannig er það ekki alls staðar í heiminum. Sums staðar er loftið mjög mengað og getur verið erfitt að anda því að sér án þess að hafa jafnvel sérstaka grímu sem verndar öndunarfærin. Víða í heiminum er mikill fólksfjöldi og þar af leiðandi mikill fjöldi bíla og ýmissa véla sem gefa frá sér koltvísýring. Ísland er fámenn þjóð og ferskir vindar blása frá hafi og því finnum við miklu minna fyrir mengun hér á landi. En allt sem gerist annars staðar í heiminum hefur áhrif á okkur og skiptir okkur máli og því er mikilvægt að allir leggi sig fram um að minnka útblástur koltvísýrings og stuðla að betri loftgæðum.Þannig er hægt að tryggja að allir hafi tækifæri til að anda að sér hreinu og fersku lofti.

 

Tilbrigði: Á vefsíðu Umhverfisstofnunar https://www.ust.is/loft/loftgaedi/ er hægt að nálgast upplýsingar um hvernig loftgæðin eru hverju sinni.

Texti sem vísar í Barnasáttmálann: Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast. 

Greinar Barnasáttmálans:

Grunnþættir menntunar:
Sjálfbærni, aðgerðir í loftslagsmálum.