10. Barnasáttmálinn í skólanum

Notaðu Eyðublað 4 í þessu verkefni. Skoðaðu stundatöfluna úr skólanum þínum vel og skrifaðu hana á blað. Kennslustundirnar sem þú ert í eru örugglega mismunandi. Skrifaðu hjá hverri kennslustund hvaða grein/ar Barnasáttmálans passa/r við. Hvaða kennslustundir finnst þér skemmtilegastar? Eru einhverjar kennslustundir sem þér finnst erfiðar? Af hverju finnst þér það? Hvernig væri hægt að breyta þeim? Er eitthvað annað sem þú myndir vilja að væri kennt í skólanum? Ef svo er, hvað er það?

Nánari upplýsingar

Á Íslandi er skólaskylda í grunnskólum sem þýðir að öll börn frá 6-16 ára aldurs eru í skóla. Sumum líður alltaf vel í skólanum, öðrum oft en nokkrum líður ef til vill aldrei vel í skólanum. Í grunnskólum eru hinar ýmsu námsgreinar kenndar með það að markmiði að nemendur fái ákveðna grunnþekkingu sem nýtist þeim í lífinu. Mörgum börnum víða um heim gefst ekki kostur á að vera í skóla. 

Efniviður:

Eyðublað 4 með óútfylltri stundatöflu og reit við hliðina til að setja númer á greinunum. 

Smelltu á blaðið hér til hliðar til að stækka það, þú getur líka prentað það út.

Tilbrigði:

Hvernig myndir þú vilja hafa skóladaginn þinn? Notaðu aftur Eyðublað 4 til að skrifa niður hvernig þér finnst að skóladagurinn ætti að vera og hvað þér finnst mikilvægt að þú lærir í skólanum.  

Texti sem vísar í Barnasáttmálann: 

Börn eiga rétt á grunnmenntun án endurgjalds ...Aðildarríkjum ber að koma á skólaskyldu...Menntun á gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis kynjanna og vináttu allra þjóða og þjóðernishópa. 

Greinar Barnasáttmálans:

Grunnþættir menntunar:

Lýðræði, mannréttindi og jafnrétti.