Fræðsla um Barnasáttmálann

Eins og kemur fram í 42. grein Barnasáttmálans eiga allir að þekkja til réttinda barna og gildir það ekki síður um börnin sjálf sem eiga rétt á því að fræðast um réttindi sín.

Í 29. grein Barnasáttmálans kemur fram að menntun eigi að gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa í samfélagi þar sem ríkir skilningur, friður, umburðarlyndi, jafnrétti og vinátta.

Þessar greinar Barnasáttmálans eru í samræmi við þá áherslu sem lögð er á lýðræði og mannréttindi í aðalnámskrá grunnskóla 2011 en þar segir m.a. (bls. 21):

Virðing fyrir manngildi og heilbrigði barna og ungmenna felur bæði í sér virðingu fyrir mannréttindum þeirra og viðurkenningu á hæfileikum þeirra og þroskamöguleikum. Viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun jafnframt því sem þau atriði fléttast saman við aðra grunnþætti menntunar.

Einnig kemur fram í aðalnámskrá grunnskóla að efla þarf þekkingu á grundvallarréttindum barna og fullorðinna með hliðsjón af íslenskri löggjöf og alþjóðasamningum. Þá verði lýðræðislegt gildismat ekki mótað nema allar námsgreinar og öll námssvið séu notuð til þess.

Námsefnið sem er að finna á vef Barnasáttmálans er fjölbreytt og leitast er við að koma að sem flestum grunnþáttum menntunar og ólíkum námssviðum. Þannig er námsefnið m.a. sniðið að mismunandi styrkleikum barna og ungmenna og sú viðleitni er viðhöfð að höfða til sem flestra. Í verkefnalýsingum verkefnanna eru kennsluleiðbeiningar settar upp á einfaldan hátt.

 

Þó kennsluleiðbeiningarnar séu einfaldar eru nokkur atriði sem gott er fyrir kennara að hafa í huga sem má nálgast hér.

Það er einnig mikilvægt að kennarar séu meðvitaðir um mikilvægi tilkynningaskyldunnar ef grunur vaknar um að barn eða ungmenni búi við óviðunandi aðstæður.