19. Móðurmál

Skrifaðu setningu á blað þar sem kemur t.d. fram hvað þú heitir, aldur, áhugmál og hvar þú átt heima. Prófaðu að þýða textann á nokkur erlend tungumál og skrifaðu textann niður. Prófaðu t.d. sænsku, hollensku, litháísku og portúgölsku. Það er líka gaman að prófa kínversku, hindí og fleiri mál sem hafa önnur stafatákn. Hvernig er nafnið þitt t.d. skrifað á japönsku? Skoðaðu vefsíðuna SignWiki Ísland eða skoðaðu bækur með táknmáli. Hvernig er nafnið þitt sagt á táknmáli? Hvernig segirðu: Ég er frábær á táknmáli? Skoðaðu líka rúnaletur sem Íslendingar notuðu til forna, þú finnur það t.d. á Vísindavefnum. 

Efniviður: Orðabækur, google translate, vefsíðan Sign Wiki Ísland, bækur um táknmál og rúnir. 

Tilbrigði: Þýddu fleiri setningar á hin ýmsu tungumál.  

Nánari upplýsingar: Það er mikilvægt að geta tjáð sig. Flestir nota tungumál til að tjá líðan sína, langanir, skoðanir og fleira. Þeir sem eru heyrnarlausir notast oft við táknmál og mynda tákn með höndunum til að tjá sig í staðinn fyrir talfæri. Talið er að í heiminum séu á milli fimm og sex þúsund tungumál. Það tungumál sem börnin læra fyrst og er mest talað á heimili þeirra er kallað móðurmál. Íslenska er móðurmál margra barna sem búa á Íslandi en þau börn sem eiga foreldra af öðru þjóðerni eiga oft annað móðurmál. Margir kunna meira en eitt tungumál og er t.d. enska alþjóðlegt tungumál sem margir skilja og geta talað. Það er gott að geta tjáð sig og skilið meira en eitt tungumál því þá er auðveldara að eiga samskipti við aðra, hvar sem þeir búa í heiminum. Stundum tekur það langan tíma að læra nýtt tungumál og þá er mikilvægt að vera þolinmóð/ur/tt og hjálpa viðkomandi svo hann nái betri tökum á málinu. 

Texti sem vísar í Barnasáttmálann:
Aðildarríkjum er skylt að virða rétt barns til að halda persónulegum auðkennum sínum svo sem ríkisfangi, nafni og fjölskyldutengslum 

Greinar Barnasáttmálans: