Um Barnasáttmálann

Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Hann staðfestir að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum eða fyrir börn.

Í 1. - 41. gr. Barnasáttmálans er fjallað efnislega um réttindi barna. Flokka má réttindi barna í þrennt; vernd, umönnun og þátttöku.

  • Vernd
    Réttur allra barna til lífs og frelsi til tjáningar, skoðana- og trúar. Friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs.
  • Umönnun
    Réttur allra barna til að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að menntun og tækifæri til að þroskast félagslega.
  • Þátttaka
    Réttur allra barna til að koma skoðunum sínum á öllum málum sem þau varða á framfæri, með einum eða öðrum hætti. Takatillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska.

 

Öll réttindin sem kveðið er á um í Barnasáttmálanumeru mikilvæg. Fjórar greinar sáttmálans fela þó í sér grundvallarreglur sem eru rauður þráður í gegnum allan sáttmálann og tengja saman ólík ákvæði hans. Ef önnur ákvæði Barnasáttmálans vega á móti hvort öðru varðandi túlkun þeirra er sérstaklega mikilvægt að hafa þessar grundvallarreglur í huga.

Greinarnar fjórar eru eftirfarandi:

2.gr. Öll börn eru jöfn
Öll börn eiga að njóta allra réttinda Barnasáttmálans án tillits til hver þau eru, hvar þau búa, hvaða tungumál þau tala, á hvað þau trúa, hvernig þau hugsa og líta út, af hvaða kyni þau eru, hvort þau eru fötluð, rík eða fátæk og án tillits til þess hvað fjölskylda þeirra gerir eða trúir á. Aldrei skal koma fram við barn af óréttlæti.

3. gr. Það sem barni er fyrir bestu
Þegar fullorðnir taka ákvarðanir eiga þeir að hugsa um hvaða áhrif þær hafa á börn og eiga að gera það sem er best fyrir þau. Stjórnvöld eiga að tryggja að foreldrar verndi börn sín og gæti þeirra eða aðrir í þeirra stað þegar þörf er á. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að fólk sem ábyrgt er fyrir börnum hafi hagsmuni þeirra alltaf að leiðarljósi og staðir sem ætlaðir eru börnum uppfylli einnig þær skyldur.

6. gr. Líf og þroski
Öll börn eiga rétt á því að lifa og þroskast og skulu stjórnvöld tryggja það.

12. gr. Virðing fyrir skoðunum barna.
Börn eiga rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim.

Greinar Barnasáttmálans númer 42–45 fjalla um hvernig skuli framfylgja sáttmálanum. Barnaréttarnefnd er nefnd um réttindi barnsins og er hlutverk nefndarinnar að fylgjast með því að aðildarríki sáttmálans framfylgi þeim ákvæðum sem kveðið er á um í honum. Nefndin er skipuð sérfræðingum sem valdir eru af aðildarríkjum í kosningu. Reglulega skila aðildarríki Barnasáttmálans skýrslu um hvernig sáttmálanum er framfylgt í viðkomandi ríki.