Um vefinn og samstarfið

Mikilvægt er að börn og fullorðnir þekki mannréttindi barna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi, UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna, í samvinnu við Menntamálastofnun hafa átt samstarf um útgáfu fræðsluefnis um Barnasáttmálann frá árinu 2007.

Barnasáttmálinn.is sem fyrst var opnaður þann 20. nóvember 2009, hefur nú verið endurnýjaður og var birtur í núverandi mynd á degi mannréttinda barna, þann 20. nóvember 2020.

Verkefnið er styrkt af ríkisstjórn Íslands, að tillögu frá forsætisráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er vefurinn ætlaður til notkunar fyrir börn á öllum aldri.

Á vefnum er að finna verkefni fyrir þrjá aldurshópa, 6-9 ára, 10-12 ára og 13-18 ára. Verkefnin eru ætluð til notkunar við kennslu mannréttinda innan grunn- og framhaldsskóla.

Eins er að finna fræðslu fyrir fullorðna, foreldra og aðra áhugasama um Barnasáttmálann, sögu hans og innihald.

Verkefnisstjórn: Barnaheill – Save the Children á Íslandi; Þóra Jónsdóttir.

Hugmyndavinna: Linda Hrönn Þórisdóttir og Þóra Jónsdóttir frá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, Pétur Hjörvar Þorkelsson frá UNICEF á Íslandi og Sigurveig Þórhallsdóttir frá umboðsmanni barna.

Höfundar námsefnis:

Fyrir yngsta stig: Linda Hrönn Þórisdóttir og Pétur Hjörvar Þorkelsson
Fyrir miðstig: Linda Hrönn Þórisdóttir
Fyrir unglingastig: Sigurveig Þórhallsdóttir og Andrea Ósk Sigurbjörnsdóttir

Grafík á vef: UNICEF og Child Rights Connect
Forritun og umsjón með gerð vefs: Stefna ehf.
Uppsetning á vef: Kolbrún Pálsdóttir
Prófarkalestur: Menntamálastofnun
Táknmálstúlkun: Iðunn Bjarnadóttir, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra
Þýðing á táknmál: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra
Þýðing á ensku: Þóra Jónsdóttir
Þýðing á pólsku: Anna Karen Svövudóttir

Barnaheill
Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem stofnuð voru árið 1919 og vinna að réttindum og velferð barna með Barnasáttmálann að leiðarljósi. Barnaheill vinna að því að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna og réttindi þeirra. Framtíðarsýn Barnaheilla er heimur þar sem sérhvert barn hefur tækifæri til að lifa og þroskast, fær gæðamenntun, lifir öruggu lífi og hefur tækifæri til að hafa áhrif. Helstu áherslur og verkefni samtakanna eru almenn réttindabarátta í þágu barna, barátta gegn ofbeldi á börnum, þátttaka barna, heilbrigðismál, menntun barna í stríðshrjáðum löndum og neyðaraðstoð.

UNICEF á Íslandi
UNICEF á Íslandi er íslensk landsnefnd Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. UNICEF er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Þau berjast fyrir réttindum allra barna og sinna bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. UNICEF eru á vettvangi í yfir 190 löndum og hafa að leiðarljósi að börn njóti velferðar – hvar sem þau er að finna. UNICEF á Íslandi vinnur einnig að réttindum barna hér á landi með víðtækri hagsmunagæslu og réttindafræðslu. Starfsfólk UNICEF vinnur meðal annars að því að greina stöðu réttinda barna á Íslandi og efla þekkingu á réttindum barna í samfélaginu. Samtökin búa til hagnýtt fræðsluefni um réttindi barna, vinna að innleiðingu Barnasáttmálans innan skóla og sveitarfélaga, ásamt því að veita stjórnvöldum á hverjum tíma aðhald í málefnum barna.

Umboðsmaður barna
Embætti umboðsmanns barna vinnur að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Embættið setur fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins. Umboðsmanni barna er ætlað að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu um málefni barna, fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans og veita börnum og fullorðnum fræðslu um sáttmálann og stuðla að því að hann og aðrir alþjóðasamningar sem varða réttindi og velferð barna séu virtir. Nánar má lesa um hlutverk umboðsmanns barna í lögum um embættið, nr. 83/1994.

Menntamálastofnun
Hlutverk Menntmálastofnunar er margþætt en eitt af verkefnum hennar er að leggja grunnskólum til námsgögn í samræmi við meginmarkmið náms og kennslu á grunnskólastigi samkvæmt grunnskólalögum og aðalnámskrá. Stofnunin ber ábyrgð á gerð, útgáfu, framleiðslu og dreifingu námsgagna, sem hún framleiðir, í samræmi við ákvæði laga um námsgögn. Menntamálastofnun gefur út margs konar námsgögn fyrir grunnskóla: kennslubækur, vinnubækur, kennsluleiðbeiningar, hljóðbækur, fræðslumyndir, handbækur og vefefni. Menntamálastofnun sér einnig um að hafa eftirlit með og meta árangur í skólastarfi ásamt því að safna og greina upplýsingar um menntamál.