2. Hvað langar þig að læra? 

Í þessu verkefni reynir á rétt barna samkvæmt 12. gr., 28. og 29. gr.

Í þetta verkefni þarf blöð og skriffæri.

Öll börn eiga rétt á menntun sem miðar að því að rækta persónuleika þeirra og hæfileika. Menntun barna á jafnframt að móta með þeim virðingu fyrir mannréttindum og þeim sjónarmiðum sem koma fram í Barnasáttmálanum.

Samkvæmt 12. gr. Barnasáttmálans eiga börn rétt á því að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós og það ber að taka réttmætt tillit til þeirra. Fátt hefur meiri áhrif á líf barna en hvernig menntun þeirra er háttað. Börn eiga rétt á því að þau séu höfð með í ráðum við skipulag menntunar og stjórnvöld eiga að veita þeim raunveruleg tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Lýsing á verkefni: Hvað langar nemendum að læra? Hvað vantar í námsefnið? Verkefninu er ætlað að vekja nemanda til umhugsunar um námsefnið og rétt sinn til þess að tjá sig um það og hafa áhrif. Nemendum er skipt upp í 4-5 manna hópa. Hver hópur kemur sér saman um að velja tvö atriði sem þeim finnst helst vanta í námsáætlunina. Þá velur hver hópur eitt námsfag sem þeim finnst kennt of mikið af og annað sem ekki sé kennt nógu mikið. Að lokum kynnir hver hópur sínar niðurstöður á einfaldan hátt fyrir framan hina. Það eflir sjálfsöryggi og samskipti.