5. Mínir einkastaðir

Finnst þér gaman ef einhvert ryðst inn í herbergið þitt, draslar allt út og hleypur svo í burtu? Þessu svarar þú örugglega neitandi. Því þú átt herbergið þitt og átt rétt á því að það séu ekki einhverjir að fara þangað inn, láta þér líða illa og spyrja ekki einu sinni um leyfi eða spá í hvað þér finnst um það.

Það sama gildir um líkama þinn og herbergið þitt – þú átt líkamann og aðrir hafa ekki leyfi til að ryðjast að honum og valda þér ef til vill vanlíðan. Þér finnst kannski notalegt að mamma strjúki þér um hárið þegar þú situr hjá henni en þér finnst ef til vill ekki þægilegt ef þú situr í strætó að það komi einhver ókunnugur og strjúki þér um hárið.

Svo eru líka vissir staðir á líkamanum sem kallast einkastaðir sem þú átt rétt á að aðrir séu ekki að ryðjast inn á.

Þú mátt alltaf:

  • biðja fólk um að stoppa
  • ákveða hver og hvenær má strjúka á þér hárið
  • segja einhverjum sem þú treystir frá ef þér líður illa
  • biðja vini þína og fjölskyldu að fara í annan leik ef þér finnst eitthvað óþægilegt í leiknum

Lýsing: Teiknaðu nú mynd af þér. Teiknaðu föt utan á þig. Bentu svo á með því að gera örvar hvar einkastaðir þínir eru sem þú vilt sérstaklega verja.

Efniviður: Blað, blýantur, trélitir, tússlitir

Texti sem vísar í greinar Barnasáttmálans: Stjórnvöld eiga að vernda börn gegn kynferðisofbeldi, þar með talið að vernda þau fyrir því að vera neydd í vændi, að teknar séu kynferðislegar myndir eða gerð kynferðisleg myndbönd af þeim.