Um Barnasáttmálann

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er mikilvægur samningur gerður af löndum sem hafa lofað að standa vörð um öll börn og réttindi þeirra. Barnasáttmálinn heitir í raun Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, en er kallaður Barnasáttmálinn í daglegu tali. Barnasáttmálinn útskýrir hvað það þýðir að vera barn, öll réttindi barna og skyldur stjórnvalda til að tryggja þessi réttindi. Öll réttindin í sáttmálanum tengjast, þau eru öll jafn mikilvæg og ekki er hægt að taka þau af börnum.

Barnasáttmálann má líta á sem reglubók, þar sem fram kemur hvernig fullorðið fólk á að hugsa um börn svo að þeim líði vel. Reglurnar í Barnasáttmálanum eru kallaðar mannréttindi. Mannréttindi segja til um það sem allir eiga að lágmarki að hafa og njóta í sínu lífi. Ef börn eru ekki með þessi mannréttindi að fullu er gjarnan sagt að mannréttindi þeirra séu brotin og þau eiga þá rétt á að úr því verði bætt.

Ef mannréttindi barna eru brotin á einhvern hátt þarf barn að geta látið vita af því og fá hjálp og ef það getur ekki sjálft kallað eftir hjálp þá er fullorðið fólk líka ábyrgt fyrir að láta vita og koma barninu til hjálpar.

Ef þú þarft á hjálp að halda því þig grunar að mannréttindi þín séu brotin skaltu tala við einhvern fullorðinn sem þú treystir, foreldri þitt, fullorðin systkini þín, ömmu eða afa, kennarann þinn eða námsráðgjafa. Þú getur líka hringt strax í Neyðarlínuna eða lögregluna í síma 112 eða haft samband í gegnum netið á www.112.is. Þú getur líka haft samband við Hjálparsíma Rauða krossins í s. 1717 eða notað netspjallið www.1717.is.

Öll mannréttindi barna eru jafn mikilvæg og þau tengjast. Mikilvægt er að þekkja réttindi sín vel og þekkja líka réttindi annarra barna.

Grundvallareglur:

  •     Rétturinn til að fá að vera eins og maður er, allir séu jafnir og sömu réttindi fyrir öll börn
  •     Rétturinn til að allar reglur sem eru ákveðnar séu miðaðar að því sem er best fyrir börn
  •     Rétturinn til að fá að lifa og þroskast
  •     Rétturinn til að fá að taka þátt og tjá skoðun sína á öllu sem skiptir börn máli

Önnur mikilvæg mannréttindi barna:

  •     Réttur til að þekkja og umgangast báða foreldra sína
  •     Réttur til að fá vernd gegn ofbeldi og lifa í friðsælu og styðjandi umhverfi
  •     Réttur til að fá að fara til læknis þegar þess þarf og fá þar góða þjónustu
  •     Réttur til að fá menntun og að vera í skóla

Mörg ríki tóku þátt í að semja reglurnar hjá Sameinuðu þjóðunum sem eru friðarsamtök. Ríkin lofuðu að gera allt sem þau gætu til að börnin í löndunum þeirra fái réttindin uppfyllt og hafi það gott. Ef land er fátækt og á erfitt með að uppfylla samninginn, eiga ríkari lönd að hjálpa til svo að öll börn í landinu fái mat, tækifæri til að ganga í skóla og geti farið til læknis ef þau verða veik. Það er fullorðna fólkið sem á að passa upp á að börn fái réttindi sín uppfyllt. Einnig er mikilvægt að öll börn viti um réttindi sín svo að þau geti sagt frá er komið er illa fram við þau eða eitthvað annað barn sem þau þekkja.

Saga Barnasáttmálans

Síðustu hundrað árin hefur staða barna í heiminum breyst mikið. Áður fyrr var ekki hugsað sérstaklega um börn þyrftu sérstök réttindi. En sífellt fleiri fóru tala um það þyrfti vernda börn sérstaklega og tryggja þeim líði sem best. Hér neðan er sýnt í tímalínu hvernig réttindi barna og svo Barnasáttmálinn þróaðist.

1924: Genfaryfirlýsingin.

 

Fyrsta alþjóðlega yfirlýsingin sem viðurkenndi réttindi barna. Samþykkt af Þjóðabandalaginu árið 1924. Fyrsta sinn sem til var skriflegt skjal um að lönd heimsins myndu skuldbinda sig til að vernda öll börn.

1948: Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna.

 

Börn komu illa út úr seinni heimsstyrjöldinni. Í þessari yfirlýsingu kom fram að allir hefðu sama rétt til frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.

1959: Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna.

 

Í yfirlýsingunni kom fram að það ætti að vernda og hugsa vel um öll börn, líka börn í löndum óvina. Einnig kom fram að börn eru hópur einstaklinga sem eiga að njóta sömu réttinda og fullorðnir.

1979. Samþykkt að búa til nýjan sáttmála um réttindi barna.

 

Ákveðið var að þetta yrði ár barnsins. Flest lönd töldu mikilvægt að tryggja réttindi barna betur og byrjað var að búa til nýjan sáttmála um réttindi barna.

1989: Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur og undirritaður.

 

Tíu árum eftir að byrjað var að vinna að nýja sáttmálanum var hann lagður fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og var þar samþykktur. Öll lönd í heimi fyrir utan Bandaríkin hafa samþykkt sáttmálann.

1992: Barnasáttmálinn samþykktur á Íslandi

 

Með því að samþykkja sáttmálann varð Ísland að virða hann og sjá til þess að farið yrði eftir honum.

2013: Barnasáttmálinn var fullgildur og settur í lög á Íslandi.

 

Með því að lögfesta Barnasáttmálann varð hann hluti af lögum á Íslandi og þarf að taka mið af því sem í honum stendur þegar vísa þarf í lög.