3. Aðgengi barna að fjölmiðlum

Í þessu verkefni reynir á 17. gr. Barnasáttmálans.

Til þess að vinna þetta verkefni þarf dagblöð, skæri, skriffæri og A4 blöð. 

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Öll börn eiga rétt á aðgangi að upplýsingum, einkum varðandi atriði er stuðla að velferð þeirra og heilbrigði, frá eigin landi sem og erlendis frá. Ríki eiga að hvetja fjölmiðla til þess að dreifa upplýsingum og efni sem börn njóta góðs af félagslega og menningarlega. Til þess að börn geri það þarf að setja efni fram á þann hátt sem er aðgengilegur börnum.

Hvaða orð, hugtök eða málefni skilja nemendur ekki úr miðlum? Æfingin styrkir skilning barna og unglinga á hugtökum og orðum sem þau þekkja ekki. Einnig fá þau æfingu í því að afla sér upplýsinga úr bókum eða frá internetinu um orð sem þau heyra t.d. í fréttum.

Lýsing á verkefni: Nemendur fletta fréttablöðum og klippa út tvær til fjórar greinar sem eru um efni sem þau skilja ekki. Þar næst fá þau tíma til að lesa sér til um efnið og síðan skrifa þau stutta og einfalda skýringu um það. Eftir að því er lokið skrifa þau eitt stikkorð sem lýsir efninu með stórum stöfum á A4 blað.

Allir nemendur setjast í hring (á stólum) og á gólfinu í miðjunni liggja öll blöðin með stikkorðunum.

Einn nemandi byrjar, fer í miðjuna og nær í eitt blað með orði sem hann vill læra um. Sá nemandi sem skrifaði skýringuna getur þá auðveldlega útskýrt þýðingu orðsins. Kennari/leiðbeinandi stýrir umræðum varlega og hjálpar til ef nemendur þurfa frekari útskýringar.